Til Baka
DEILDU
Með næstu ævintýri í eyrunum

Með næstu ævintýri í eyrunum

viðtal
June 26, 2025
Texti
Ritstjórn
Mynd
Kilroy
Ferðalög eru gjarnan markaðssett á myndrænan hátt en ferðaráðgjöfin Kilroy ákvað nýverið að setja í loftið hlaðvarpsþættina Kilroy-kastið. Herferð spjallaði við markaðsstjóra Kilroy, Rannveigu Hafsteinsdóttur um ákvörðunina og af hverju það borgar sig að sjá hlaðvarpið sem dýpri tengingu við markhópinn frekar en viðbótarauglýsingamiðil.

Í átta þátta seríu hlaðvarpsins taka ferðalangarnir Rebekka Þurý Pétursdóttir og Bergrún Sóla Ásgeirsdóttir á móti góðum gestum og fjalla um allt sem tengist ferðalögum og ævintýrum um allan heim. Aðspurð af hverju Kilroy ákvað að framleiða hlaðvarp útskýrir Rannveig að það sé leið til að bjóða dýpri tengingu. „Hlaðvarpsmiðillinn gefur okkur tækifæri til að vera aðeins persónulegri og deila raunverulegum sögum sem ættu kannski ekki jafn vel heima á öðrum miðlum.“ Hún bætir við að hlaðvörp séu þar að auki afar sveigjanlegur miðill, sérstaklega á sumrin þegar fólk er mikið á ferðinni, „þá getum við tengst markhópnum okkar hvar sem er, í ferðalaginu, í ræktinni eða á meðan þau eru að taka til eða elda.“

Rannveig Hafsteinsdóttir markaðsstjóri Kilroy og Kilroy-kastkonurnar Rebekka Þurý Pétursdóttir og Bergrún Sóla Ásgeirsdóttir.

Sumarið er tíminn - fyrir hlaðvörp 

Rannveig segir þau hafi lengi gengið um með hugmyndina í maganum en þeim hafi þótt ákveðið gat á markaðinum fyrir ferðahlaðvarp: „Sá heimur er gríðarlega stór og á miklu er að taka og okkur langaði að skapa vettvang þar sem hægt væri að takast á við þau umræðuefni á persónulegri hátt.“ Árstíminn segir Rannveig hafi líka spilað stórt hlutverk í að þau riðu á vaðið og að nú væri rétti tíminn: „Okkur fannst síðan tímasetningin fullkomin, að geta verið í eyrunum á fólki á meðan það er á ferð og flugi í sumar.“

Innblástur fyrir umræðuefni fengu þær Rebekka og Bergrún helst frá fylgjendum á samfélagsmiðlum og ferðaráðgjöfum en það var ljóst að marga þyrsti í að hlusta á frásagnir um ferðalög um heiminn segir Rannveig og bætir við; „Við vitum vel hverju fólk er að velta fyrir sér áður en það heldur af stað í stóra ferð og því gaman að fá að tækla þær spurningar og vangaveltur á nýjum vettvangi.“

‍Átta þátta sería Á Áætlun.

Á þitt fyrirtæki að vera með hlaðvarp? 

Fyrirtæki eru í síauknum mæli að nýta sér hlaðvarpsmiðilinn til að miðla efni og tengjast betur markhópum sínum. Undirbúningurinn sé hins vegar mikill segir Rannveig og bendir á að mikilvægt sé að átta sig á hvað markmiðið sé og hvað hlustandinn eigi að taka með sér frá hverjum þætti. „Hlaðvarpið verður að rödd vörumerkisins og því mikilvægt að maður sé að styðja við það á allan máta með réttum skilaboðum og grunngildum.“ 

Aðspurð að því hvernig hlaðvarpið passi inn í önnur markaðsverkefni Kilroy segir Rannveig það sé í raun hluti af stærri stefnu Kilroy um að byggja sterkari tengsl við markhópinn. Þar að auki sé hlaðvarpsmiðillinn leið til að halda í þessi tengsl þegar sumarið skellur á og að margir séu kannski með hugann við annað en skipulagningu á næsta ævintýri.

Góð ráð fyrir áhugasama 

Hvað myndi Rannveig mæla með fyrir aðra markaðsstjóra sem langar að halda af stað í hlaðvarpsvegferð? „Mitt besta ráð er að passa sig að hugsa ekki að hlaðvarpið sé bara viðbótarauglýsingamiðill.“ 

Þess í stað mælir hún með því að hugsa hlaðvarpið frekar sem vettvang fyrir samtal við markhópinn og styrkingu trausts á vörumerkinu. Ef það gleymist verður upplifun hlustandans fljótt neikvæð: „Góðir þættir verða einungis til þegar hlustendur fá virði frá þeim. Ef upplifunin verður sú að hlaðvarpið sé bara ein stór auglýsing þá fellur það um sjálft sig.“

Kaupa eða leigja? 

Á tæknilegu nótunum segir Rannveig þau hafi ákveðið að fjárfesta í hlaðvarpsbúnaði hjá Ofar til að hafa möguleikann á að víkka út verkefnið enn frekar og þróa fleiri seríur. 

Fyrir áhugasama er vert er að benda á að einnig er hægt að leigja hlaðvarpsstúdíó og eru þó nokkur slík á markaði í dag s.s Kaiku Sound. Þar má leigja bæði búnað en einnig fá aðstoð við klippingu og birtingu.

Kilroy-kastið má finna á Spotify.

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Meðmæling: Flestir treysta meðmælum umfram aðra miðla
frétt
June 12, 2025

Meðmæling: Flestir treysta meðmælum umfram aðra miðla

TEXTI
Maskína
Þögnin stundum áhrifamesta hljóðið
viðtal
June 12, 2025

Þögnin stundum áhrifamesta hljóðið

TEXTI
Ritstjórn & Sigurður Eiríksson
Ný SÝN: „Ígrunduð ákvörðun“ sem hófst fyrir tæpu ári
viðtal
June 19, 2025

Ný SÝN: „Ígrunduð ákvörðun“ sem hófst fyrir tæpu ári

TEXTI
Ritstjórn