Til Baka
DEILDU
Bestu hugmyndirnar koma frá athugasemdum

Bestu hugmyndirnar koma frá athugasemdum

viðtal
March 6, 2025
Texti
Ritstjórn
Mynd
Aðsendar
Marta Rún Ársælsdóttir starfar sem markaðsstjóri Fiskmarkaðsins og Uppi bar, þar sem hún stýrir markaðsmálum og viðburðum. Hennar helsta ráð til að koma veitingarstað á kortið? Að fá allt starfsfólkið með sér í lið.


Marta Rún lýsir því sem ótrúlegum forréttindum að fá að vinna við áhugamálin sín en ástríða hennar snýr aðallega að mat og víni. Það hafi þó ekki verið planið að vinna í veitingageiranum heldur var stefnan tekin á markaðsmál enda hafi Marta að eigin sögn heillast af þeim mannlegu þáttum sem fagið snýr að.

Eftir að hafa lokið námi í Miðlum og almennum tengslum frá Bifröst lá leið Mörtu til Barcelona þar sem hún fékk starf hjá Kick Global, stafrænni markaðsstofu. Þar starfaði Marta Rún sem samfélagsmiðlafulltrúi fyrir hótelkeðju og sá um hótel í London, París, Prag, Vín og Barcelona.

Það var þó ekki fyrr en í Covid sem markaðs- og matarheimarnir runnu saman þegar Hrefna Sætran, einn þekktasti kokkur Íslands og eigandi fjöldamargra staða hafði samband og réð Mörtu til starfa. Síðan þá hefur Marta séð um markaðsmál fyrir fjölda veitingarstaða í borginni en leggur í dag megin áherslu á markaðsmál og viðburði hjá Fiskmarkaðinum og Uppi bar. 

Marta Rún ásamt Hrefnu Sætran og vinnufélögum í leit að innblæstri

Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér?


Vinnudagarnir mínir eru fjölbreyttir en yfirleitt byrja ég vikuna á mánudagsfundi til að skipuleggja komandi daga ásamt því að fara yfir samfélagsmiðladagatalið og tryggja að allt sé tilbúið. Ég skoða líka og greini frammistöðu samfélagsmiðlaefnis og auglýsinga frá liðinni vikunni.

Oft eru viðburðir eða tilboð í gangi á veitingastöðum, sérstaklega í kringum ákveðna  tyllidaga, sem þarf að minna á yfir vikuna. Þá er ég einnig að plana fram í tímann, skipuleggja og safna hugmyndum. Við vinnum vel saman sem gott teymi þegar kemur að hugmyndavinnu fyrir staðina, hvort sem það er að plana viðburði, smakka nýjan rétt eða finna bestu leiðir til að mynda hann og kynna.

Hvernig verkefni ertu með á þínu borði alla jafna?

Sem hluti af því að vera einnar konu teymi þýðir að ég þurfti að læra mikið upp á eigin spýtur, þar sem fyrri reynsla hafði aðallega snúist um samfélagsmiðla. Ég lagði mikla áherslu á að fá aðstoð og kennslu í Google leitarvélabestun, þar sem samkeppni er mikil í veitingageiranum. Ég tel það gríðarlega mikilvægt að vera sýnilegur á Google, sérstaklega fyrir ferðamenn og vera skráður rétt.

Einnig hef ég yfirsýn yfir Google Reviews og Tripadvisor. Ég fer yfir umsagnirnar, svara öllum athugasemdum og kem þeim til skila ef það á við. Það er ótrúlegt hvað miklar hugmyndir koma frá viðskiptavinum, bæði frá þeim sem hrósa og þeim sem koma með annars konar endurgjöf. Þetta getur oft verið eina boðleiðin frá þeim til okkar og hefur leitt til góðra hugmynda.

Ég hef einnig nýtt mér fréttabréfamarkaðssetningu fyrir Íslendinga og sé mjög vel í bókunum á viðburðum sem hafa verið skipulagðir með íslenskum viðskiptavinum í huga.

Auk þess vinn ég reglulega í markaðssetningu í samstarfi við áhrifavalda á Íslandi og stundum erlenda áhrifavalda. Mikilvægt er að velja rétta fólkið, sem ég tel að passi vel við vörumerkin og geti miðlað góðu efni. Ég hef séð það virka mjög vel þegar það er rétt valið.

Viðburðir eru eitt það skemmtilegasta sem ég geri en það er mikilvægur þáttur í að skapa upplifun. 

„Þegar þú ferð út að borða, maturinn er góður og þjónustan er góð, er það nóg til að þú nefnir það á kaffistofunni daginn eftir? “



Að skipuleggja viðburði og móment sem sitja eftir og bjóða eitthvað öðruvísi er eitthvað sem mér finnst ótrúlega skemmtilegt.

Hvernig heldur þú þér á tánum í markaðsfræðinni og hvar öðlast þú nýrrar þekkingar í faginu?

Það skiptir miklu máli  að vera stöðugt að læra, og viðhorf okkar til markaðssetningar þarf ávallt að vera framsækið og næmt fyrir nýjum tækniþróunum og breyttum þörfum markhópa.


Ég er dugleg að fylgjast með fyrirtækjum erlendis sem mér finnst vera að búa til flott efni, en ég hlusta líka á hlaðvörp, les greinar og fylgjast með spennandi fólki. Ég sæki einnig námskeið og fyrirlestra til að halda mér á tánum.

Það sem mér finnst líka mikilvægt er að kynna sér allar hliðar á fyrirtækinu sem maður vinnur fyrir.

Teymið hennar Mörtu er í stærri kantinum, enda eru þau öll hluti af markaðssetningunni

Í mínu tilfelli er ég í dagvinnu, en 95% af starfsfólkinu er í kvöldvinnu. Fyrir mig er það mikilvægt að fara út að borða, kynnast starfsfólkinu, hlusta á það, horfa á þjónustuna og keyrsluna á staðnum kvöldin.

Ég kynni mér einnig allan matseðilinn, skoða hvernig réttirnir líta út og hvernig þeir eru bornir fram. Þetta gefur mér hugmyndir fyrir efnisframleiðslu og góð augnblik til að sýna á samfélagsmiðlum.

Þegar ég fer út að borða á öðrum veitingastöðum, hvort sem það er hér á landi eða erlendis, er ég alltaf að hugsa hvað þeir eru að gera sem ég gæti verið að missa af.

Hvað er spennandi á þessum stað? Hvað er fólk að taka myndir af?

Það fer mikil vinna í að þróa rétti og ekki síður framsetninguna



Þú getur eytt miklu púðri og peningum í að markaðsetja vöru eða nýjung en ef allt teymið er ekki tilbúið, telur það ekki virka eða ekki nægilega upplýst um breytingar til þess að taka á móti kúnnanum eftir hann sér auglýsinguna þá er þetta allt tilgangslaust.


„Góð samskipti við teymið er því lykilinn að vel heppnaðri markaðssetningu.“

Hvað vildir þú óska að fólk vissi um starfið þitt?


Ég vildi að fólk vissi hversu fjölbreytt og skemmtilegt starfið mitt er og hversu mikil vinna fer í að byggja upp og viðhalda sterku samfélagi á samfélagsmiðlum. Þetta snýst ekki bara um að setja upp pósta heldur að skoða hvers konar efni virkar og hvernig við getum nýtt auglýsingar og viðburði til að ná til réttra viðskiptavina. 



Ég myndi líka vilja að fólk vissi hversu mikilvægt það er að vera í beinu sambandi við starfsfólk og viðskiptavini.  Að vera virkur og  byggja upp tengsl við alla sem koma að fyrirtækinu getur leitt til þess að við fáum betri hugmyndir og skapað sömuleiðis dýpri tengsl við viðskiptavini okkar.

Ef þú myndir byrja með hlaðvarp í dag hvað myndi það heita?


Matarblaður! Ég elska allt sem tengist mat, víni og ferðalögum.

Í hvert skipti sem einhver segir mér frá upprunalandi sínu eða síðasta ferðalagi, spyr ég alltaf strax:

„Hvernig var maturinn? Hvað er týpískur réttur fyrir þitt land eða borg?“

Ætli mér myndi ekki finnast skemmtilegast að taka svona viðtöl og læra um mismunandi matarmenningar, rétti og spennandi brögð.

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Stönt til að stuða: Jafnvægið milli ögrunar og boðskapar
pistill
October 21, 2024

Stönt til að stuða: Jafnvægið milli ögrunar og boðskapar

TEXTI
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir
Anna Fríða til Nóa Siríus — tekur sæti í fram-kvæmdastjórn
ráðningar
October 3, 2024

Anna Fríða til Nóa Siríus — tekur sæti í fram-kvæmdastjórn

TEXTI
Ritstjórn
Viðburður: Áskoranir vefverslana
frétt
December 5, 2024

Viðburður: Áskoranir vefverslana

TEXTI
Ritstjórn