Til Baka
DEILDU
Upplýsingaóreiða líka vandamál markaðs- og samskiptastétta

Upplýsingaóreiða líka vandamál markaðs- og samskiptastétta

pistill
June 30, 2025
Texti
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir
Mynd
Aðsend
Traust almennings hefur veikst, til dæmis gagnvart stjórnvöldum, stofnunum og fjölmiðlum.

Þetta sýna fjöldamargar rannsóknir og kannanir, en við sjáum það líka í viðbrögðum fólks við fréttum, á samfélagsmiðlum og í samtölum þar sem óvissan um hverjum megi trúa er orðin áberandi.

Snertir starfsemi markaðsmála

Þó að þetta tengist auðveldlega stjórnmálaumræðunni, þá snertir það einnig starf þeirra sem vinna við markaðsmál og almannatengsl.

Við erum hluti af sama upplýsingaumhverfi sem býður upp á að þessi svið verða samtvinnuð.  

Hröð dreifing

Rangfærslur, sérvalin (e. cherry-picked) gögn, hlutdrægni, tilfinningapólitík eða gildishlaðnar frásagnir (e. narratives) dreifast hratt og víða, en fyrirtæki og vörumerki verða oft hluti af slíku flæði.

Nauðsynlegt að vanda til verka

Við sem störfum í markaðssetningu og almannatengslum þurfum að átta okkur á því hvernig þetta umhverfi breytir forsendum okkar starfa.

Það fer varla framhjá fáum að í núverandi umhverfi hafa hraði, árangursmælingar og sýnileiki afgerandi áhrif.

Þetta getur þó orsakað að ekki er vandað jafn mikið til verka við vinnslu, sem getur valdið því að upplýsingarnar verða óskýrar, samhengi vantar eða tilgangur frásagna er óljós.

Hættulegt tómarúm

Þarna getur myndast tómarúm sem gjarnan er fyllt upp í með tilgátum, vantrausti eða einfölduðum skýringum sem ganga illa upp.

Ljóst er að þetta kallar á meiri nákvæmni, skýrleika og faglega meðvitund um hvernig við miðlum efni.

Þetta er samtal sem við verðum að taka alvarlega innan okkar fagstétta.

Berum öll ábyrgð

Við berum jú í mörgum tilfellum ábyrgð á því hvernig mikið magn upplýsinga er mótað og sett fram.

Upplýsingaóreiða er sjaldnast augljós og hún birtist ekki alltaf sem skýr lygi eða misræmi. Hún getur falist í of mikilli einföldun, ófullnægjandi heimildavinnu eða áherslum sem ýta undir vantraust gagnvart tilteknum málaflokkum, hópum eða fyrirtækjum.

Saklaust efni getur kveikt bál

Það getur breytt miklu að vera meðvitaður um hættur sem þessar þrátt fyrir að efnið sem unnið er með sé saklaust. Að halda í traust krefst þess að við séum skýr, sanngjörn og gagnsæ.

Það er svo sem ekkert nýtt við það – en það hefur aldrei skipt jafn miklu máli.

Höfundur starfar við samskiptaráðgjöf hjá Cohn & Wolfe á Íslandi.

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Verðlaunadeild KEF lögð niður
frétt
June 12, 2025

Verðlaunadeild KEF lögð niður

TEXTI
Ritstjórn
Streita mest hjá íslensku auglýsingafólki
frétt
June 12, 2025

Streita mest hjá íslensku auglýsingafólki

TEXTI
Ritstjórn
Könnun: Hvað finnst þér um íslenskar auglýsingastofur?
frétt
June 12, 2025

Könnun: Hvað finnst þér um íslenskar auglýsingastofur?

TEXTI
Ritstjórn