Ný herferð Landsbankans í tilefni af EM kvenna í knattspyrnu er farin í loftið. Í sjónvarpsauglýsingunni, sem var frumsýnd í byrjun júní, fylgjumst við með ungri stelpu sem stekkur af stað í leit að penna eftir að hafa heyrt áhugaverða tilkynningu í útvarpinu. Við sjáum fólk á öllum aldri og um allt land gera slíkt hið sama og við fylgjumst með þeim hlaupa af stað í átt að ótilgreindum stað.
Unga aðalsöguhetjan kemst loks með pennann sinn á áfangastaðinn sem er troðfullur af fólki.
Hún brýtur sér leið í gegnum fjöldann og að borði þar sem landsliðskonurnar Sandra María Jessen, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Natasha Moraa Anasi-Erlingsson sitja.
Í stað þess að unga söguhetjan fái eiginhandaráritun frá landsliðinu, þá er dæminu snúið við og hún gefur landsliðskonunum sína áritun.
Þessi táknræni stuðningur í formi áritana fylgir síðan Stelpunum okkar áfram á lokamót EM í Sviss.
Safna áritunum frá almenningi
Hjalti segir að eiginhandaráritanir séu rauði þráðurinn í allri herferðinni.
„Við erum að safna eiginhandaráritunum frá almenningi til stuðnings íslenska kvennalandsliðinu. Þetta er grunnhugmyndin með herferðinni, að fá almenning til að taka virkan þátt í að skapa táknrænan stuðning“.
Hjalti hvetur sem flesta til að fara inn á síðuna landsbankinn.is/aframisland og hripa niður rafræna eiginhandaáritun fyrir Stelpurnar okkar.
Slagorð herferðarinnar “Skrifum söguna saman” er tilvísun í þennan táknræna stuðning frá íslensku þjóðinni og einnig þá staðreynd að Ísland er í góðu tækifæri til að komast áfram úr riðlinum sínum á EM og vonandi skrifa nýjan kafla í sögu kvennalandsliðsins.
Stelpurnar okkar hafa ítrekað sýnt og sannað að Ísland býr yfir landsliði í fremstu röð, en þetta er í fimmta sinn í röð sem þær komast inn á lokamót EM.
Hugsunin á bak við herferðina
Hjalti segir að kveikjan að þessari tilteknu hugmynd hafi orðið til eftir heimsókn Glódísar Perlu í Kórinn þegar hún var kjörin íþróttamaður ársins.
Í fréttum var ritað að „Glódísar-æði hafi gripið um sig“ og ungir aðdáendur hafi beðið með eftirvæntingu í röð til að fá að hitta Glódísi og fá eiginhandaráritun frá henni.“ (Sjá frétt)
„Eiginhandaráritanir eins og þessar, eru stór hluti af knattspyrnumenningunni og þar kristallast náið samband aðdáenda og leikmanna“, segir Hjalti.
„Okkar hugsun var: Hvað ef við snúum dæminu við og leyfa íslensku þjóðinni að gefa Stelpunum okkar eiginhandaráritun? Þær eru ekki aðeins fyrirmyndir fyrir unga fólkið, þær eru einnig að spila fyrir hönd þjóðarinnar og það er mikilvægt að þær finni stuðninginn frá þjóðinni.“
Hann segir að eiginhandaráritanir séu bæði táknræn leið til að sýna stuðning og gefi fólki tækifæri á að taka virkan þátt í herferðinni og skilja eitthvað eftir sig. Samhliða rafrænu áritunum þá hefur Landsbankinn einnig safnað alvöru áritunum á stór skilti.
„Við höfum tekið stórt skilti með okkur á úrslitakvöld Skólahreystis og einnig á leik Íslands og Frakklands í Þjóðardeildinni.
Það hafa verið frábærar móttökur og frábær andi. Allir eru til í að leggja nafn sitt við íslenska landsliðið. Næsti áfangastaður verður á TM mótinu í Vestmannaeyjum þar sem við munum safna áritunum frá knattspyrnukonum framtíðarinnar.“
EM skiltin munu að lokum fylgja íslenska landsliðinu á æfingasvæðið þeirra í Sviss.
Herferðin
Landsliðskonurnar Sandra María Jessen, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Natasha Moraa Anasi-Erlingsson koma fram í sjónvarpsauglýsingunni og Karólína Pálmadóttir er í hlutverki ungu söguhetjunnar.
Herferðin og hugmyndin var unnin í nánu samstarfi við vörumerkjastofuna Tvist. Framleiðsla og kvikmyndataka var á vegum framleiðslufyrirtækisins Norður og Álfheiður Marta Kjartansdóttir leikstýrði.
Álfheiður Marta er einn öflugasti auglýsingaleikstjóri landsins og hún hefur leikstýrt stórum auglýsingaverkefnum fyrir Icelandair, TM, Bleiku slaufuna, Stígamót og Landsbankann. Álfheiður hefur einnig leikstýrt og framleitt í sjónvarpsþáttum á borð við Svörtu sandar, Vinátta, Mannflóran og heimildarmyndinni Lesblinda sem var tilnefnd til Edduverðlauna árið 2022.
Hvers vegna er bankinn að standa í svona boltabrölti?
Hjalti segir að Landsbankinn sé virkur þátttakandi í samfélaginu og því taki hann þátt í fjölbreyttum verkefnum sem stuðla að uppbyggingu og framþróun.
„Við hjá Landsbankanum leggjum okkur fram við að styðja íþrótta- og æskulýðsstarf um allt land. Útibú bankans gera það með beinum samstarfssamningum, auk þess sem við tökum þátt í ýmis konar samstarfi á landsvísu. Í slíku samstarfi leggjum við áherslu á að styðja við barna- og unglingastarf.“
Hluti af þeirri sýn er að vera bakhjarl KSÍ og taka þátt með virkum hætti í uppbyggingarstarfi íslenskrar knattspyrnu um land allt.
„Við styðjum öll yngri landslið og A-landslið karla og kvenna. Undanfarin ár höfum við veitt háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ á mótum yngri flokka um allt land. Með veitingu verðlaunanna viljum við hvetja til háttvísi og heiðarlegrar framkomu hjá leikmönnum og annarra er að mótunum koma“, segir Hjalti að lokum.