Til Baka
DEILDU
Skibidí klósett

Skibidí klósett

pistill
October 24, 2024
Texti
Stein­ar Þór Ólafs­son
Mynd
Aðsend

Þið hafið pottþétt lent í því að vera að hitta vini og kunningja í gleðskap og á staðnum er manneskja sem er á umtalsvert hærri tíðni en allir hinir. Hún er í meira stuði og virkar oft með smá rembing miðað við aðra á svæðinu. Einhvern veginn tekst henni samt eiginlega alltaf að draga einhvern í hópnum, jafnvel ykkur sjálf, upp á sína tíðni þannig þið eruð allt í einu komin úr karakter. Í augnablikinu gerist þetta nokkuð náttúrulega og virðist góð hugmynd til að mæta tíðninni þeirra en þegar stundin er liðin fær maður pínu aulahroll eða hugsar með sér að sá sem lét platast hafi nú aðeins prjónað yfir sig. Enda alltaf frekar asnalegt að vera eitthvað annað en maður sjálfur.

Í heimi markaðsmála má segja segja að ímynd fyrirtækja sé það sama og karakter einstaklinga. Það er bókstaflega allt sem einstaklingur eða fyrirtæki er, annað en sjálft holdið og kjötið. Hvernig það hagar sér, hvað það segir, hvernig það segir það, hverju það klæðist, hvern það umgengst o.s.frv. Flestir einstaklingar setjast í sinn karakter með aldrinum og allar þessar ákvarðanir verða náttúrulegar en innan fyrirtækja þurfa þau sem bera ábyrgð á ímyndinni að hugsa um þetta í öllu sem fyrirtækið gerir. Þannig þarf að standast freistinguna þótt einhver nýr mæti í gleðskapinn sem vill toga fyrirtækið af sinni tíðni að muna hver ímynd fyrirtækisins er. Það sem getur t.d. virst góð taktík í skilningi þess að það nær til margra og fær áhorf á netinu er eftir sem áður ekki endilega góð markaðssetning því það fellur ekki að þeirri ímynd sem fyrirtækið vill hafa.

Nú liggur fyrir að komandi alþingiskosningar verði á milli Black Friday og Cyber Monday og markaðsfólk búið að benda á að nær öll góð auglýsingapláss í aðdraganda þessarar helgar voru uppbókuð fyrir margt löngu. Erfitt, jafnvel vonlaust, gæti því reynst fyrir stjórnmálaflokkana að koma skilaboðum sínum til kjósenda í gegnum hefðbundna miðla í aðdraganda kjördags og þá verða góð ráð dýr. Það má af því tilefni rifja upp auglýsingar danska kúluvarparans og stjórnmálamannsins Joachims B. Olsens sem fór óhefðbundnar leiðir í aðdraganda þingkosninganna í Danmörku árið 2019. Joachim birti nefnilega kosningaauglýsingar sínar á einni stærstu klámsíðu heims, Pornhub, og uppskar athygli heimspressunnar fyrir. Slagorð auglýsinganna á síðunni var „Når du er færdig med at gokke så stem på Jokke“ sem útleggja mætti á íslensku sem

„Eftir að þú klárar að fróa kjóstu þá Jóa“

þar sem gælunafn Joachims var Jokke. Aðspurður hvers vegna í ósköpunum hann og flokkur hans Liberal Alliance hafi ákveðið að birta kosningaauglýsingar á klámsíðu svaraði hann því til að mikilvægt væri að mæta kjósendum þar sem þeir væru. Röksemdafærsla var að eftir allt saman væri um helmingur alls á netinu klám og Pornhub ein mest skoðaða síða heims svo af hverju ekki að slá upp gamansamri kosningaauglýsingu á einum vinsælasta stað netsins? Fyrir þau sem er umhugað um ímynd stjórnmálafólks og -flokka er lítið mál að telja til margar ástæður af hverju hugmyndin var slæm en óhætt er að segja að auglýsingar Joachims falli í flokkinn góð taktík en slæm markaðssetning.

Þótt desperasjónin sem birtist í Silfrinu í síðustu viku taki ekki af allan vafa um að einhver stjórnmálaflokkur gæti freistast til þess að auglýsa á Pornhub má telja það ólíklegt. Nær öruggt er þó að þeir muni allir reyna fyrir sér á hinum nýja miðli TikTok. Í stuttri og snarpri kosningabaráttu sem flokkarnir voru illa undirbúnir fyrir kæmi það lítið á óvart að oddvitarnir létu plata sig til að mæta einhverri tíðni á miðlinum sem sannarlega er ekki þeirra eigin. Þá er ágætt að muna að þótt eitthvað hljómi sem góð taktík sem sannarlega skili miklu áhorfi á vinsælum stað á netinu er ekki þar með sagt að góð taktík sé endilega góð markaðssetning á stefnu og frambjóðendum flokksins. En ef allt um þrýtur geta stjórnmálaflokkarnir sem horfa fram á mesta fylgistapið gripið í nauðvörnina, mætt á TikTok með einn af oddvitum sínum og fengið viðkomandi til að segja eitthvað eins „skibidí klósett“. Það mun að minnsta kosti þóknast þessum í partíinu sem eru á hærri tíðni en allir hinir og hver veit nema sá hópur skili sér af TikTok og á kjörstað.

Eftir Stein­ar Þór Ólafs­son, Sam­skipta­fræðing­.

Pistillinn birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 23. október 2024

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Íslensk hönnun í jólapakkann
frétt
November 28, 2024

Íslensk hönnun í jólapakkann

TEXTI
Saman
Ólöf til liðs við Athygli
frétt
October 24, 2024

Ólöf til liðs við Athygli

TEXTI
Athygli
Dana tekur við markaðs- og kynningarmálum Lauf Cycles
ráðningar
November 28, 2024

Dana tekur við markaðs- og kynningarmálum Lauf Cycles

TEXTI
Lauf Cycles