Til Baka
DEILDU
Reginn verður Heimar - vörumerki óhrætt við sviðsljósið

Reginn verður Heimar - vörumerki óhrætt við sviðsljósið

verkefni
October 18, 2024
Texti
Heimar/Brandenburg
Mynd
Heimar
Nýlega varð þekkta vörumerki fasteignafélagsins Reginn fært í nýan búning og nefnt Heimar. Pétur Rúnar Heimisson, markaðs- og þjónustustjóri Heima ræddi við Herferð um ferlið og ábyrgðina að fylgja vörumerki eftir í svona umfangsmikilli endurmörkun. 

Veturinn 2022 hóf Fasteignafélagið Reginn undirbúningsvinnu við nýja markaðsstefnu og nýja ásýnd sem fól m.a. í sér nýtt nafn og þar að leiðandi gjörbreytta ásýnd. Í vor var svo hulunni svipt af nýja vörumerkinu og Heimar leit dagsins ljós - nútímalegt fasteignafélag sem skapar sjálfbæra borgarkjarna sem nærast á drifkrafti mannlegra samskipta. 

„Persónulega þá vildi ég bara gera allt það sem samkeppnin var ekki að gera. Með því vildi ég brjóta eins mörg norm og hægt var - svo lengi sem það var rétt fyrir okkur og í takt við okkar persónulega auðkenni. Ástæðan fyrir því var að ég vildi að fólk myndi sjá okkur eins og við erum í raun og veru -  sem eitthvað allt annað en hefðbundið fasteignafélag, sem stendur yfirleitt bara fyrir steypu og gler“ segir Pétur.

Pétur útskýrir að með ferskri ásýnd, nýju heiti og ímynd gátu þau endurspeglað þann góða anda, kraft, og gleði sem ríkir hjá fyrirtækinu og starfsfólki þess. Það var því mikilvægt að nafngiftin myndi ramma inn bæði stefnuna en líka hugsjónina sem er drifkrafturinn hjá félaginu.

„Við völdum stórt nafn. Heiti sem hjálpar okkur að vaxa og hugsa lengra. Nafn sem veitir okkur innblástur og stækkar okkur.“ 

Sköpunarstofan Brandenburg aðstoðaði Pétur og teymið með bæði strategíuvinnu sem og útfærslu á hönnun og útliti ásamt hugmyndavinnu í kringum nafngiftina. Jari Helgason, sköpunarstjóri hjá Brandenburg segir nafnið vera vissulega mikilvæg byrjun en segi þó ekki alla söguna.

„Að finna rétta nafnið er bara fyrsta skrefið. Það sem skiptir öllu máli er hvað við gerum við nafnið. Björk er kannski stærsta poppstjarna Íslands — en hún er líka bara tóbaksbúð í Bankastrætinu“ segir Jari.

Aðspurður hvernig ferlið hafi verið að fara frá abstrakt hugmyndum um heima og geima yfir í að þróa vel ígrundað vörumerki útskýrir Pétur að þau hafi byrjað með ákveðnar hugmyndir um hugrenningatengsl sem þau vildu að nafn og útlit myndi kalla fram hjá fólki. 

„Það var skýrt að við vildum vera nútímaleg, traustvekjandi og fersk. Ekki of hörð en ekki of mjúk heldur en umfram allt sannfærandi, skýr og trú okkar sjálfsmynd og stefnu“ útskýrir Pétur.

Fasteignafélög hafa almennt ekki verið þekkt fyrir að vera með eftirtektarverða og ferska ásýnd, hver var drifkrafturinn á bakvið að skapa vörumerki sem yrði tekið eftir? „Við vildum að vörumerkið væri áberandi, eftirminnilegt og óhrætt við sviðsljósið. Við vissum að við yrðum að þora að breyta okkur til að markaðurinn gæti séð okkur í réttu ljósi“ segir Pétur. Aðspurður hver grafíska nálgunin hafi verið útskýrir Pétur að það eigi rætur sínar að rekja til merkisins en það er teiknað með lóðréttum og láréttum línum brotnum upp með 45° skálínum. 

Pétur nefnir sérstaklega merki Heima sem hann segir vera nútímalegt en samtímis tímalaust. Umfram allt sé það hreyfanlegt til notkunar í nútímamiðlaumhverfi. Einfalt geometrískt merki með margþætta vísun í fjölbreytta starfsemi félagsins. Litapallettan er sótt í íslenskt umhverfi; birtu og andstæður ljóss og skugga. Dökki liturinn sem traust undirstaða vísar í stutt vetrardægri og bláma næturhiminsins en björtu litirnir í endalausa birtu sumarsins.

„Merkið okkar stendur sterkt eitt og sér en á jafnframt að geta staðið stolt með vörumerkjunum okkar. Þannig getum við aukið sýnileika Heima og byggt upp vitund vörumerkisins.“

Pétur segir verkefnið hafa verið að mestu bara skemmtilegt og áskoranir þær sömu og fylgja gjarnan öllum stórum verkefnum sem krefjast mikils skipulags. Að sögn Péturs hafi það skipt höfuðmáli að vera með gott traust stjórnar og annarra stjórnenda hjá félaginu, og að allir voru sammála um hvað þyrfti að gera: sýna hin sanna anda sem byggi í félaginu og starfsfólki þess.

„Eftir mikla rannsóknar-og undirbúningsvinnu varð það okkur ljóst að sjálfsmynd félagsins, þ.e. starfsmanna þess, stjórnenda og stjórnar var kýrskýr -  það vissu allir hvað við stöndum fyrir, hver við erum og hvert við erum að stefna. Vandinn var bara sá að sökum lítillar áherslu á uppbyggingu vörumerkis Regins vissi markaðurinn ekki vel fyrir hvað við stæðum og hver persónuleiki félagsins okkar væri“ segir Pétur.

Pétur Rúnar Heimisson, markaðs- og þjónustustjóri Heima.

„Við sáum því að það var gjá á milli þess hvernig við sáum okkur og hvernig markaðurinn sá okkur.“ 

Pétur segist þakklátur fyrir stuðninginn frá samstarfsfélögum og stjórn sem voru öll feiknarlega ánægð með útkomuna á Heimum, „Stjórn félagsins var með í ferlinu frá upphafi og fékk reglulega kynningar og uppfærslur varðandi framgang verkefnisins og það var sérstaklega ánægjulegt og gott að finna stuðninginn og hvatninguna frá þeim. Viðbrögð allra annara voru líka mjög góð og það myndaðist strax mikil stemning fyrir þessu öllu saman eftir að við kynntum nýtt nafn og útlit fyrir starfsfólki.“ 

Hvernig er að leggja grundvöll fyrir svo stórtækum breytingum? „Umfangsmiklar breytingar hafa mikil áhrif á sjálft félagið og starfsfólk þess og þess vegna er svo mikilvægt að vanda vel til verks. Undirbúningurinn skiptir gríðarlegu máli og mikilvægt að vera með allt á hreinu varðandi væntingar og markmið. Ef grunnvinnan er góð er þetta það skemmtilegast sem hægt er að gera í okkar bransa að mínu mati. Það að skoða allt í kjölinn, rannsaka núverandi stöðu, eiga öll samtölin og velta öllum steinum sem þarf til að skilja grunninn og kjarnann alveg í þaula til að geta skapað nýtt vörumerki, stefnur, strategíur og innleiðingarferla er bara alveg hrikalega skemmtilegt og gefandi. Það er sennilega einhver spennufíkn og mikil lærdómsfýsn í mér sem gerir það að verkum að mér þyki þetta svona skemmtilegt og gefandi.“

Þrátt fyrir að Pétur hafi borið meginábyrgð á sköpun Heima segist hann hafa verið með nokkra sterka aðila sér til halds og trausts, þar á meðal Baldur Má Helgason framkvæmdastjóra viðskipta og Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóra Heima. „Við unnum þetta mikið saman og tókum allar stórar ákvarðanir í sameiningu. Ég fann strax að starfsfólk var stolt af þessu og markaðurinn tók þessu vel og við fengum mikið hrós strax fyrstu dagana og það er það skemmtilegast við þetta, að finna að fólk skilur pælingarnar sem liggja að baki nafninu, merkinu og öllu útlitinu.“

Ýtarlegri yfirferð á hönnunarferli Heima má finna hér.

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Stönt til að stuða: Jafnvægið milli ögrunar og boðskapar
pistill
October 21, 2024

Stönt til að stuða: Jafnvægið milli ögrunar og boðskapar

TEXTI
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir
Þögnin stundum áhrifamesta hljóðið
viðtal
November 20, 2024

Þögnin stundum áhrifamesta hljóðið

TEXTI
Ritstjórn & Sigurður Eiríksson
Ceedr: Endurmörkun afhjúpaði menningarmun
viðtal
October 24, 2024

Ceedr: Endurmörkun afhjúpaði menningarmun

TEXTI
Ceedr