Starfsferilinn segir Orri hafa verið afar fjölbreytilegan síðastliðin fimmtán ár og oft litast af óvæntum tækifærum. Hann hafi byrjað á útvarpstöðinni X-977 í sumarafleysingum en það breyttist fljótlega þegar honum bauðst áframhaldandi starf. „Þetta ævintýri kveikti djúpan áhuga minn á útvarpi og markaðsstarfi. Þegar ég hóf störf hjá þeim var stöðin t.d. með enga samfélagsmiðla en eitt af mínum fyrstu verkum var að stofna þá og sjá um alla samfélagsmiðla stöðvarinnar. Á X-inu höfðum við mikið frelsi til að prófa nýjar hugmyndir - fjármagnið var takmarkað en það ýtti undir sköpunargleðina.“
Orri starfaði á X-inu allt til ársins 2015, þar til hann hóf mastersnám við Emerson College í Boston í markaðsfræði og auglýsingagerð. Árið 2020 kallaði fjölmiðlaheimurinn á Orra Frey á ný en hann sá þá um þáttinn Sportrásin á Rás 2 samhliða starfi hjá framleiðslufyrirtækinu Tjarnargötunni en færði sig svo alfarið yfir til RÚV þar sem hann tók við sem kynningarstjóri Rásar 2 samhliða útvarpsmennsku á stöðinni. „Reynslan á RÚV var ómetanleg, ég bar ábyrgð á kynningu á dagskrá stöðvarinnar í samvinnu við grafíska hönnuði. Ég sá einnig um framleiðslu á auglýsingum fyrir stöðina sem og viðburði á hennar vegum, t.d. Tónaflóð um landið og stórtónleika Rásar 2 á menningarnótt.“
Í lok árs 2021 tók ferillinn nýja stefnu þegar Orra Frey bauðst að starfa hjá Reykjavíkurborg í tengslum við alþjóðlegt samstarf við Bloomberg samtökin. Upphaflega var hann ráðinn til að kynna verkefnin sem unnin voru innan samstarfsins en starfið þróaðist fljótt yfir í hlutverk upplýsingafulltrúa þjónustu- og nýsköpunarsviðs, þó með áherslu á Bloomberg-verkefnið. „Senn lýkur kaflanum hjá Reykjavíkurborg og ég flyt til Brussel þar sem fjölskylda mín hefur dvalið síðustu mánuði. Ég hlakka til að takast á við ný ævintýri og verkefni í þessum nýja kafla starfsferilsins“ segir Orri.
Hefur þú gert mistök í starfi sem reyndust vera góður lærdómur?
„Já, ég hef gert mistök í starfi og ég er sannfærður um að þau hafi verið ómetanlegur hluti af starfsþróun minni. Mistök eru oft besta leiðin til að læra, sérstaklega í skapandi greinum eins og markaðs- og auglýsingastarfi.
Eitt sem ég hef lært af reynslunni er mikilvægi þess að taka skynsamlegar áhættur. Ég hef alltaf lagt áherslu á að fyrirtækin sem ég vinn með séu óhrædd við að prófa nýjar leiðir og vera skapandi. Hins vegar felast í slíku ferli óhjákvæmileg mistök. Stundum hafa viðburðir eða herferðir ekki skilað þeim árangri sem vonast var eftir en þau mistök hafa orðið verðmætur lærdómur.
Ég lærði líka snemma að það er óskynsamlegt að setja öll eggin í sömu körfuna, þess vegna legg ég áherslu á að þróa margar litlar tilraunir frekar en að fjárfesta í einni stórri. Með þessu má lágmarka áhættu og tryggja að mistökin verði ódýr en jafnframt lærdómsrík.
Ef ég ætti að nefna stærsta lærdóminn, þá er það að treysta fólkinu sem maður vinnur með.
Í upphafi ferils míns átti ég það til að vilja leysa hlutina sjálfur eða hafa fulla stjórn. Með tímanum hef ég þó lært að treysta á styrkleika vinnufélaganna til að vega upp á móti mínum eigin veikleikum. Að byggja upp traust og virðingu innan teymis hefur sýnt mér að öflug samvinna getur leyst næstum öll verkefni, sama hversu stór þau eru.“
Hvernig er deildin þín uppsett og hlutverk innan hennar?
„Hjá Reykjavíkurborg er ég einn með ábyrgð á kynningarstörfum á mínu sviði en hef þó náð að búa til lítið teymi sem er mér til aðstoðar þegar við á. Ég vinn einnig náið með sviðsstjóra og skrifstofustjórum en hef sett mesta áherslu á að vinna með öllu því starfsfólki sem er að vinna að áhugaverðum verkefnum til þess að miðla þeim áfram - megnið af vinnunni snýst um innri kynningu enda borgin afar stór vinnustaður.
Þegar kemur að ytri kynningu hef ég getað nýtt reynsluna frá fjölmiðlum við að bóka viðtöl til að segja fólki betur frá áhugaverðum verkefnum fyrir íbúa Reykjavíkur. Allir upplýsingafulltrúar vinna svo með samskiptateymi Reykjavíkurborgar sem hittist reglulega til að fara yfir stærri mál og samræma hlutina.“
Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér?
„Ég hef verið svo lánsamur að fáir dagar hjá mér eru eins þó er meiri regla í vinnunni hjá mér hjá Reykjavíkurborg en áður. Til dæmis þegar ég starfaði í fjölmiðlum eða á Tjarnargötunni þar sem enginn dagur var fyrirsjáanlegur.
Morgnarnir hafa breyst töluvert eftir að fjölskylda mín flutti erlendis. Fyrst var það krefjandi að koma tveimur leikskólabörnum af stað út í daginn áður en ég hélt sjálfur til vinnu. Það krafðist bæði skipulags og þolinmæði. Eftir að börnin byrjuðu í nýjum skóla erlendis í haust hefur morgunrútínan róast og nú ber ég aðeins ábyrgð á því að koma mér sjálfum á réttan stað á réttum tíma.
Í vinnunni byrja ég daginn á stuttum fundum til að fara yfir helstu verkefni dagsins. Ég legg mig fram um að halda fjölda funda í lágmarki - þeir eru oft gagnlegir en stórir fundir skila sjaldan miklu.
Mest legg ég áherslu á texta- og hugmyndavinnu og ég reyni að nýta morgnana og fyrri hluta dags til verkefna sem krefjast einbeitingar. Seinnipartinn þegar orkan fer dvínandi set ég gjarnan fókus á léttari verkefni eða undirbúning.
Mér finnst líka oft gott að vinna í hugmyndum á kvöldin þegar það er orðið rólegt á heimilinu.
Svo er fátt skemmtilegra en að brjóta aðeins upp á vinnudaginn með því að halda kynningar fyrir starfsfólk. En ég hef þurft að halda stórar kynningar nær vikulega hvort sem það er um ákveðin verkefni, skapandi hugsun eða framkomu.
Að lokum skiptir hreyfing mig miklu máli. Hún er lykillinn að því að halda orku og einbeitingu yfir daginn. Hvort sem það er stutt æfing á morgnana eða hreyfing í hádeginu, þá finn ég strax mun á afköstum þegar ég gef mér tíma fyrir hana.“
Tekurðu strategískar ákvarðanir þegar kemur að starfsferlinum? Ertu með 5 ára plan?
„Nei, ég hef sjaldan unnið eftir langtímaplani þegar kemur að starfsferlinum. Ég hef verið einstaklega heppinn að lenda í störfum sem hafa verið bæði spennandi og gefandi og yfirleitt hefur mér liðið vel þar sem ég er.
Þegar ný og óvænt tækifæri hafa komið upp hef ég verið óhræddur við að stökkva á þau og breyta til.
Núna er ég þó að stíga inn í algjörlega nýjan kafla í lífi mínu þar sem ég flyt í nýtt land. Þessi óvissa er á vissan hátt bæði spennandi og felur í sér skemmtilega áskorun. Fyrstu vikurnar ætla ég að nýta til að koma mér fyrir, aðlagast nýju umhverfi og finna rútínu. Það gefur mér tíma til að hugsa næstu skref í rólegheitum áður en ég tek ákvörðun um framhaldið.“
Notar þú gervigreind í þínum daglegu störfum?
„Ég hef lítið notað gervigreind í mínum störfum. Hef einstöku sinnum gripið í að nota hana við einhverskonar textapælingar en ég hef verið svo heppinn að vinna með einstaklega færum textasmiðum sem ég hef treyst betur en gervigreindinni til að renna yfir texta frá mér. Ég sé þó alveg fyrir mér að nýta gervigreindina meira í framtíðinni enda er hún stöðugt að verða betri og áreiðanlegri.“
Ef þú myndir byrja með hlaðvarp í dag hvað myndi það heita?
„Þar sem ég er forfallinn íþróttaaðdáandi hef ég verið gestur í ótal fótboltahlaðvörpum og stýrði lengi hlaðvarpsþáttum um FH. En ætli nýtt hlaðvarp frá mér myndi ekki kallast „Hvar er bíllinn minn” þar sem ég hef ótrúlegan hæfileika í að týna hlutum, hvort sem það eru bílar, lyklar eða yfirhafnir.“