Til Baka
DEILDU
Markaðsfólk: Elvar Páll hjá Marel

Markaðsfólk: Elvar Páll hjá Marel

viðtal
November 28, 2024
Texti
Ritstjórn
Mynd
Aðsend
Elvar Páll Sigurðsson starfar sem markaðsstjóri fiskiðnaðar hjá Marel en hann ber ábyrgð á markaðssetningu um allan heim. Hann myndi vilja að fleiri áttuðu sig á fjölbreytninni sem býr í starfi markaðsstjórans en ekki síður hve mikilvægt markaðsstarf er fyrir vöxt og velgengni fyrirtækja almennt. Hann nýtir keppnisskapið úr fótboltanum og situr á nær fullmótuðu plani fyrir hlaðvarpsþætti.

Áður en Elvar Páll kom til Marel starfaði hann sem markaðsstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Men&Mice og tók þátt í því þegar fyrirtækið var selt til kanadíska tæknifyrirtækisins BlueCat. Fyrir það var hann hjá Pipar/TBWA í nokkur ár sem viðskiptastjóri og markaðssráðgjafi.


Hefuru gert mistök í starfi sem reyndust vera góður lærdómur? Hvað fór úrskeiðis?
Þegar maður starfar í markaðsmálum og í raun flest öllum störfum þá gerir maður alltaf mistök. Það er partur af því að þróast, læra og taka skref fram á við. Spurningin er hvernig þú tekst á við mistökin og hvernig fyrirtækið horfir á þessa hluti.


Það kemur svo sem ekkert eitt upp í hugann en einn góður lærdómur sem stendur upp úr er að vera auðmjúkur og ekki halda að maður viti allt.

Mistökin mín á sínum tíma voru kannski þau að ætla mér að taka of mörg verkefni að mér þar sem metnaðurinn hjá mér er mikill.

Það sem ég lærði var mikilvægi þess að treysta á teymið og að allir sinni sínum verkefnum, því margt smátt kemur saman og byggir upp eitt stórt og grunnurinn skiptir öllu máli. Ég hef einnig séð hversu miklu máli skiptir að byggja sterkan grunn áður en þú ætlar þér aðra hluti. Ef grunnurinn er ekki til staðar þá gætir þú verið að setja þig í þá stöðu að þú hlaupir í hringi.

Grunnur getur til dæmis átt við að vinna vel með mikilvæg kerfi sem í okkar tilviki er til dæmis Salesforce og nýta sér gögnin, setja sér skýra mælikvarða, markmið og stefnu. Gott samstarf og samtal við aðrar deildir er einnig mikilvægt. Tryggja að allir í teyminu skilji stefnuna og hvert við erum að fara, skilji sitt hlutverk og hafi frelsi til þess að sinna því. Þú byggir ekki hús nema á grunni, og það sama á við um þetta.

Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér?
Það er enginn dagur eins hjá mér en ég byrja daginn oft á því að labba með börnin mín tvö í skólann og leikskólann.

Það er alltaf yndisleg stund, gott að fá ferskt loft og smá hreyfingu til að koma deginum af stað. Hreyfing er mjög mikilvægur partur af mínum dögum og ég gef mér alltaf pláss fyrir hreyfingu – hún er grunnurinn minn og gefur mér orku, góðar hugmyndir og hjálpar mikið til við að ég sé upp á mitt besta.


Þegar ég er kominn í tölvuna þá kíki ég á tölfræði, skoða hvernig hlutirnir eru að þróast og þá lykilmælikvarða sem við erum að horfa á. Þetta mótiverar mig og heldur mér á tánum þar sem ég hef mikið keppniskap eftir að hafa spilað fótbolta allt mitt líf.  


Ég svara svo þeim póstum sem eru í forgangi og kem verkefnum af stað sem þarf hverju sinni. Verkefnin eru mjög fjölbreytt, en stundum er ég á ferðalagi og þá þarf maður að passa vel upp á að a halda rútínu og halda öllum boltum áfram í gangi. Ég fór til að mynda til Kína fyrir tveimur vikum á stærstu sjávarútvegssýningu í Asíu og þá þurfti ég nánast að snúa sólarhringnum við og passa að halda í rútínu sem skiptir mig mjög miklu máli.


Hvernig er deildin þín uppsett og hlutverkin?
Marel er leiðandi á heimsvísu í þróun á tækjum og búnaði til matvælavinnslu og er í dag sett upp þannig að fyrirtækið skiptist í nokkra mismunandi iðnaði og deildir. Í hverjum iðnaði er markaðsstjóri sem ber ábyrgð á markaðssetningu þess iðnaðar/deildar um allan heim. Þannig er ég ábyrgur fyrir markaðssetningu fiskiðnaðarins á alþjóðavísu en Marel er með margþætt vöruframboð og allskonar lausnir til vinnslu á fiski.

Marel er með skrifstofur í um 30 löndum og viðskiptavini í yfir 140 löndum. Þetta þýðir að ég sem markaðsstjóri þarf að skilja mismunandi markaði, þörf, virðistilboð, samkeppni, stöðu á fiskvinnslu í hverjum markaði fyrir sig og svo framvegis.

Þetta allt saman þarf að skilja og þannig aðlaga markaðsstefnu hvers markaðar að því, þannig er okkar nálgun og áhersla í markaðssetningu í Norður Evrópu eða Norður Ameríku öðruvísi en í Suður Ameríku eða Asíu sem dæmi.

Í mínu teymi vinn ég sem markaðsstjóri og svo er markaðssérfræðingur einnig sem tilheyrir fiskiðnaðinum. Marel er svo með markaðssdeild sem starfar þvert á fyrirtækið þar sem eru grafískir hönnuðir, efnishöfundar, sérfræðingar í margmiðlun, stafrænir markaðssérfræðingar, samskipta og almannatengsl og sérfræðingar sem halda utan um sýningar og viðburði sem við fórum á og höldum.

Þannig vinnum við með markaðssdeildinni sem hjálpar til við að framkvæma og fylgja eftir þeirri markaðsstefnu sem við höfum sett. Svo eru einnig markaðs sérfræðingar á þeim mörkuðum sem Marel starfar á, en við vinnum náið með þeim sem styður okkur mikið í því að komast í nálægð við mikilvæga markaði.

Hvernig heldur þú þér á tánum í markaðsfræðinni og hvar öðlast þú nýrrar þekkingar í faginu?
Ég hlusta mikið á bækur á Storytel um markaðsfræði, nýsköpun, rekstur fyrirtækja, sölu og í raun allt sem tengist fyrirtækjarekstri með einum eða öðrum hætti, ég brenn fyrir þetta og þá er auðvelt að sökkva sér ofan í nýja þekkingu og læra meira.


Ég hlusta mikið á hlaðvörp þessu tengdu og mér finnst það mjög mikilvægt, en það koma alltaf upp hugmyndir og hlutir sem ég get tengt við það sem ég innleiði svo eða tek til mín persónulega.


Ég er líka með aðgang að upplýsingasarpinum Gartner þar sem ég er duglegur að fylgjast með áhugaverðum hlutum, en ég var einmitt að klára bókina "Playing to Win: How Strategy Really Works” eftir A.G Lafley sem er frábær bók og ég mæli með fyrir alla sem hafa áhuga á stefnumótun.

Ég les líka mikið bækur sem hjálpa mér með ýmsum hætti svo sem eins og Atomic Habits og Seven Habits sem ég mæli með.


Notar þú gervigreind í þínum daglegu störfum? Ef svo er, við hvað lætur þú hana fást og hvernig hefur gervigreindin hjálpað þér síðan hún kom fram á sjónarsviðið?
Já, ég geri það stundum og þá aðallega þegar ég er í hugmyndavinnu eða til þess að koma mér af stað í ákveðin verkefni.

Við verðum að aðlaga okkur að breyttum veruleika og gervigreindin er eitt af því, en ég sé mikil tækifæri og möguleika með því að nota gervigreind í framtíðinni. Það eru vægast sagt spennandi tímar framundan þar.


Hvað vildir þú óska að fólk vissi um þitt starf en hefur ekki hugmynd um?
Ég fæ oft spurninguna hvað ég sé nákvæmlega að gera í mínu starfi og hvernig það er. Það sem kemur alltaf fyrst upp í hugann er hversu skemmtilegt það er að fá að vinna í alþjóðlegu fyrirtæki eins og Marel. Marel er mjög flott fyrirtæki þar sem starfa sérfræðingar á öllum sviðum sem eru forréttindi að fá að starfa með.

Þetta er fjölbreytt starf þar sem maður er að tala við fólk út um allan heim og hittir viðskiptavini og samstarfsfólk í mismunandi heimsálfum.


Ég held að sumir hafi einmitt ekki hugmynd um hversu fjölbreytt starf það er að vera markaðsstjóri og ég held að það átti sig ekki allir á því hversu mikilvægt það er fyrir fyrirtæki sem ætla sér að vaxa og skapa sér sérstöðu á markaði að markaðssdeildin sé ekki sér úti í horni heldur stór partur af því sem er að gerast innan fyrirtækjanna.

Lykillinn er að framkvæmdastjórn fyrirtækisins sé alltaf að hugsa um markaðs- og samskiptamál, í vöruþróun, sölu, þjónustu, nýsköpun og sé grunnstoðin í stefnu fyrirtækja.

Það sem gerir starfið einmitt svo fjölbreytt er að fá að vinna þvert á flest öll teymi þar sem markaðssetning tengist nær öllu því sem við gerum. Innsýnin sem maður fær er mjög verðmæt og yfirgripsmikil og ég held að það séu ekki allir sem átti sig á þessu.


Ef þú myndir byrja með hlaðvarp í dag hvað myndi það heita?
Fyrsta sem mér dettur í hug er Líðandi stund, en ég hef áhuga á öllu milli himins og jarðar og finnst vanta fleiri skemmtileg hlaðvörp í anda Tvíhöfða þar sem er farið yfir allskonar mál á skemmtilegan hátt. Ég fengi ábyggilega Arnar Pétursson langhlaupara með mér en það er mjög fyndið hvert spjallið okkar fer oft á meðan við erum að skokka saman.

Við Arnarlýstum einmitt Ólympíuleikunum í maraþoni saman um daginn og fengum meira hrós fyrir en ég bjóst við. Svo gæti góðvinur okkar læknirinn og tónlistarmaðurinn Victor Guðmundsson (Doctor Victor) einnig verið með okkur og gert gott inngangslag, en það myndast alveg mögnuð dýnamík þegar við þrír komum saman. „Líðandi stund og léttir í lund“ með Arnari Péturs, Elvari Páli og Victori Guðmunds – þurfum kannski að vinna aðeins betur í þessu ...

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Kominn tími á Kombakk?
herferð
December 3, 2024

Kominn tími á Kombakk?

TEXTI
Hvíta Húsið
Svona skaparu ógleymanlegt vörumerki
pistill
December 9, 2024

Svona skaparu ógleymanlegt vörumerki

TEXTI
Helga Ósk Hlynsdóttir
Stönt til að stuða: Jafnvægið milli ögrunar og boðskapar
pistill
October 21, 2024

Stönt til að stuða: Jafnvægið milli ögrunar og boðskapar

TEXTI
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir